top of page
  • Writer's pictureFjalar

Skýr skilaboð - auðveldara uppeldi

Sum börn virðast eiga erfitt með að fara eftir fyrirmælum. Hinn fullorðni gefur skýr fyrirmæli en barnið hlýðir bara alls ekki. Hinn fullorðni verður eðlilega ósáttur við að barnið hlýði sér ekki og bregst við reiður eða refsar barninu með því að taka eitthvað af því s.s. að vera í tölvunni, fara út eftir mat o.s.frv.


Ef barn fer ekki eftir fyrirmælum er mikilvægt að skoða vel hver ástæðan fyrir því er. Heyrði barnið örugglega fyrirmælin jafnvel þótt það væri tiltölulega nálægt? Eru fyrirmælin þess eðlis að barnið vill ekki fara eftir þeim? Er barnið að sýna að það hefur sjálfstæðan vilja? Voru skýru fyrirmælin kannski bara alls ekki eins skýr og hinn fullorðni taldi?


Það skiptir máli hvað er sagt. Ef markmið foreldrisins er að fá barnið til að koma að borða er ekki vænlegt til árangurs að segja: „Vissir þú ekki að á þessu heimili borðum við á slaginu hálf sjö? Um leið og þú heyrir fréttirnar í sjónvarpinu ættir þú að geta gert þér grein fyrir því að maturinn er kominn á borðið og þá viljum við að allir séu komnir að matarborðinu. Það væri nú heldur ekki of mikið að koma kannski aðeins fyrr og hjálpa mér að undirbúa matinn. Þú getur nú vel lagt á borðið og fundið drykki og og og…“ Barnið heyrir aðeins flaum orða og er litlu nær um hvað eigi að gera. Foreldrið nær aðeins að hella úr skálum pirrings og barnið nær í besta falli þeim upplýsingum að það er kominn matur og það eigi að koma að borða.


Skilaboðin þurfa að vera skýr. Þótt færri orð séu notuð er samt ekki endilega víst að skilaboðin skili sér. Ef foreldrið fer til barnsins og segir: „Hvenær hafðir þú nú hugsað þér að koma að borða?“ og hverfur svo á braut, er sömu sögu að segja. Barnið fær ekki skýr skilaboð um að það eigi að koma að borða. Barnið hafði líklega hugsað sé að koma að borða þegar maturinn væri tilbúinn en það vissi einfaldlega ekki að hann væri kominn á borðið.


Skilaboð þurfa að vera einföld og hnitmiðuð, sérstaklega ef hinum fullorðna þykir barnið eiga erfitt með að fara eftir fyrirmælum. Hinn fullorðni þarf líka að vera viss um að barnið heyri raunverulega fyrirmælin. Þá þarf mögulega að fara til barnsins, jafnvel snerta það létt á öxlina og gefa því skýr skilaboð: „Maturinn er tilbúinn. Komdu að borða, núna.“ Barnið heyrir örugglega hvað sagt er því þú ferð til þess. Þú nærð athygli þess því þú snertir það á öxlina. Barnið veit nákvæmlega hver staðan er - maturinn er tilbúinn. Það veit hvað það á að gera - koma að borða. Það veit líka hvenær á að bregðast við - núna. Allt þetta með einni einfaldri aðgerð; fara til barnsins, ná fullri athygli þess og gefa skýr skilaboð.


Skýr skilaboð - einfaldara uppeldi.

Comments


bottom of page