top of page
  • Writer's pictureFjalar Freyr Einarsson

Morgunstund á virkum dögum

Á sumum heimilum er morgunstund á virkum dögum engin gull í mund. Þvert á móti er arg og þras við að koma öllu heimilisfólkinu út á réttum tíma svo engin verði seinn í skólann eða vinnuna.


Þegar barn sýnir erfiða hegðun er alltaf ástæða fyrir því. Í megindráttum eru tvær ástæður fyrir því að barn sýnir erfiða hegðun. Annars vegar er barnið að koma sér undan einhverju hins vegar vill barnið fá eitthvað.


Þegar barn sýnir erfiða hegðun að morgni á virkum dögum en ekki um helgar, liggur beinast við að draga þá ályktun að það sé eitthvað í gangi á virkum dögum sem fær barnið til að líða illa. Það vill komast undan einhverju.


Auðveldast er að benda á skólann og segja að barnið sé ekki ánægt í skólanum. Það getur vel verið og þarf þá að skoða það með umsjónarkennaranum og/eða öðrum sérfræðingum.


Kannski þarf samt ekki að fara yfir lækinn til að sækja vatnið. Mögulega eru aðstæður heima fyrir á virkum dögum sem ekki eru til staðar um helgar sem fær barnið til að líða illa.


Börnum líkar illa tímapressa og að láta reka á eftir sér. Flest börn og reyndar fullorðnir líka, vilja fá þann tíma sem þau þurfa til að gera það sem þeim finnst mikilvægt. Börn vilja fá að vakna í friði, klæða sig í rólegheitunum, fá að skoða áhugaverða hluti (leikföngin sín) án þess að rekið sé á eftir því, borða morgunmatinn sinn þegar maginn er vaknaður o.s.frv.


Þegar allar þessar þarfir eru sniðgengnar er eðlilegt að barninu líði illa og mótmæli, jafnvel þótt það sjálft hvorki viti né skilji af hverju það mótmælir. Það veit bara að því líður illa og er ósátt.


Hvað er þá til ráða? Eins og fyrr hefur komið fram er grundvöllur alls að skilja hver er ástæða hegðunarinnar. Augljósasta aðgerðin er að kanna hvort barnið hafi fengið nægan nætursvefn. Ef barnið er þreytt þarf það líklega að fara fyrr að sofa. Ef morgunninn einkennist af kappi við tímann þarf mjög líklega að vakna fyrr. Það gæti meira að segja þýtt að aðrir heimilismenn þurfi líka að fara fyrr að sofa 😉.


(Sum börn eiga erfitt með svefn. Að koma slíku barni fyrr í rúmið kallar líklega aðeins á enn lengri baráttu við að sofna. Ýmis ráð eru við slíkum erfiðleikum en við erfiðustu tilfellin er skynsamlegt að leita til svefnsérfræðings).


Fyrir sum börn hjálpar að setja verkefni morgunsins upp á sjónrænan hátt. Á netinu er urmull mynda sem foreldrar geta prentað út og sett í tímaröð. Hægt er að setja upp sjónræna klukku svo barnið sjái á myndrænan hátt hvað það hefur langan tíma í hvert verkefni. Sjónrænar klukkur, svokallaðir tímavakar, fást í skólatengdum verslunum. Einnig er hægt að birta sjónrænar klukkur á tölvuskjá (eða varpa upp á sjónvarpið) og nota leitarorðið timetimer online.


Í sumum tilfellum getur hjálpað að gera samning um umbun við barnið t.d. að það fái umbun fyrir að vera búið að klæða sig tilteknum mínútum eftir að það er vakið.


Engum finnst gott að láta reka á eftir sér. Undirbúum hvern morgun þannig að allir fái þann tíma sem þeir þurfa til að ganga glaðir í annir dagsins.


bottom of page