top of page
  • Writer's pictureFjalar Freyr Einarsson

Háttátími barna

Þegar kemur að háttatíma barna er eins og sum börn umturnist. Þau öskra og æpa og harðneita að gera nokkuð sem þau eru beðin um.


Mikilvægt er að átta sig á ástæðu hegðunarinnar. Hvað er það við háttatímann sem kemur barninu úr jafnvægi? Ýmsar ástæður geta legið að baki en yfirleitt er leið til að yfirstíga erfiðu hegðunina, vandinn er að finna ástæðu hennar. Þegar tekist hefur að finna ástæðu hegðunarinnar er hægt að takast á við vandann. Fagaðilar geta veitt aðstoð við að finna ástæðuna m.a. með svokallaðri AHA skráningu (Aðdragandi – Hegðun – Afleiðing).


Nauðsynlegt er að hafa undirbúning háttatímans í föstum skorðum og hvika aldrei frá honum. Ef uppalendur láta hróp og læti barnsins seinka háttatímanum er verið að kenna því aðferð til að færa háttatímann. Góð regla gæti verið að byrja á að fara á klósettið, bursta tennurnar, fara í náttfötin, finna til fötin fyrir næsta dag og barnið segi svo góða nótt við heimilisfólkið. Flestum börnum finnst gott að láta lesa fyrir sig og jafnvel syngja fyrir sig líka. Sumum börnum finnst líka öryggi í því að biðja bænir fyrir svefninn.


Gott er að geta boðið barninu upp á val. Ef það er vandamál að fá barnið til að bursta tennurnar er hægt að bjóða upp á mismunandi tannkrem eða mismunandi umbúðir. Það er líka hægt að vera með tvo tannbursta, t.d. Batman og Superman tannbursta og getur barnið þá valið á milli. Það er líka hægt að bjóða barninu að velja í hvaða náttfötum það vill sofa. Til að grípa huga barnsins í upphafi getur verið gott að byrja á að leyfa barninu að velja sér bók sem á að lesa. Hægt er að hafa bókina í augsýn svo barnið hafi eitthvað að hlakka til í undirbúningnum áður en það fer svo í rúmið.


Þegar foreldrið ætlar að fara fram eru sum börn óörugg eða jafnvel hrædd við að vera ein. Foreldrið getur þá fengið sér sæti fjarri rúminu en samt inni í herberginu og setið þar í fimm mínútur. Það fer svo út úr herberginu í eina mínútu og kemur svo aftur í fimm mínútur. Fer svo í tvær mínútur og kemur aftur í fimm mínútur og lengir þannig tímann smám saman. Mikilvægt er að vera samt alltaf í kallfæri við barnið svo það finni alltaf öryggi í nærveru foreldrisins.


Hvert barn er einstakt og stundum þarf að prófa sig áfram til að finna út hvað hentar best til að stöðva óæskilega hegðun. Hafa þarf í huga að engin töfralausn er til og oftast þarf nokkurn tíma þar til réttar aðferðir skila árangri.

bottom of page