top of page
  • Writer's pictureFjalar Freyr Einarsson

Hvernig hegðun verðlaunar þú?

Að ala upp barn er líklega erfiðasta og mest krefjandi verkefni sem hægt er að taka sér fyrir hendur en sem betur fer líklega það starf sem er hvað mest gefandi. Eins merkilegt og það er, er fátt sem undirbýr uppalendur undir þetta mikilvæga verkefni. Hundaeigendur fara gjarnan með hundana sína á svokölluð hlýðninámskeið en uppeldi barnanna okkar er unnið á hyggjuvitinu einu saman, oftast litað af okkar eigin uppeldi. Það má því segja að eðlilegt sé að uppeldið fari ekki alltaf eins og maður vildi. Flestir foreldrar velta líklega fyrir sér á einhverjum tímapunkti hvað hafi farið úrskeiðis og hvernig í ósköpunum sé hægt að ráða við óþægðina hjá barninu.


Góðu fréttirnar eru þær að í flestum tilfellum er hægt að stemma stigu við óþægðinni á frekar einfaldan máta. Með skýrum og einföldum reglum er hægt að hjálpa barninu að hegða sér betur og verða þægilegra í umgengni.


Æskileg hegðun er ekki innbyggð í mannkynið. Barn sem fær athygli fyrir hegðun sína er líklegt til að endurtaka hana síðar. Því er mikilvægt að veita æskilegri hegðun athygli því sú hegðun sem fær athygli eykst. Leggja þarf áherslu á að veita jákvæðri og æskilegri hegðun athygli en neikvæðri og óæskilegri hegðun þarf að hundsa ef hægt er. Yfirleitt dugar að gefa barninu hrós fyrir hegðunina, bros, „þumal“ eða faðmlag sem dæmi.


Hegðun mótast af þeirri styrkingu (eða umbun) sem barnið fær. Stundum styrkja uppalendur slæma hegðun barnsins óafvitandi. Það gera þeir t.d. þegar þeir láta eftir barninu þegar það suðar í matvörubúðinni eða það grenjar þar til það fær að vaka hálftíma lengur að kvöldi. Barnið lærir að það fær það sem það vill með því að suða eða grenja og uppalendurnir verðlaunað þannig barnið fyrir óásættanlega hegðun og allar líkur á að sagan endurtaki sig við næstu sambærilegu kringumstæður.


Næst þegar barnið þitt sýnir hegðun sem þér finnst ekki ásættanleg skaltu velta fyrir þér viðbrögð þín. Það er alltaf ástæða fyrir því að barnið hegðar sér eins og það gerir.

コメント


bottom of page